Nám til framtíðar
Vefur Mennta- og meningarmálaráðuneytisins í tengslum við grunnþætti menntunar.
Menntastefna nýrra aðalnámskráa er reist á sex grunnþáttum sem varða starfshætti, inntak og umhverfi náms á öllum skólastigum. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
Með þessum sex grunnþáttum er lögð áhersla á að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi.
Hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir skulu vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða, bæði hvað varðar þá þekkingu og leikni sem börn og ungmenni skulu afla sér.